Stáli er höfðinginn á bænum, stolt búsins, enda einn af hæst dæmdu stóðhestum í heimi. Hann er undan landsmótssigurvegaranum Galsa frá Sauðárkróki og Jónínu frá Hala. Stáli var sýndur á Landsmóti á Vindheimamelum 2006 og stóð þar efstur í flokki stóðhesta 7. vetra og eldri. Hann hlaut í aðleinkunn 8,76 og setti þar með heimsmet. Stáli fékk í byggingu 8,26 og fyrir hæfileika 9,09, þar af 9,5 fyrir skeið, vilja og geðslag og fegurð í reið. Stáli er glæsilegur rýmishestur, fjörugur, ásækinn og þjáll. Í umgengni er hann yfirvegaður og skynsamur, stoltur og sjálfstæður og það má með sanni segja að hann standi hjarta heimilisfólsksins í Kjarri nærri.
Saga Stála er að mörgu leiti sérstök en snemma kom í ljós að hann var skaðaður á fæti sem háði honum alla tíð. Stáli er ekki eftirminnilegur sem tryppi, hann var óttalega krangalegur og lítið fallegur. En þar sem foreldrar hans Jónína og Galsi voru í miklum metum hjá Helga þá stóð aldrei til að gelda hann og hafði Helgi alltaf góða tilfinningu fyrir þessu tryppi.
Á fjórða vetur var Stáli gerður reiðfær af Daníel Jónssyni. Eftir 17 daga tamningu var Stáli orðin reiðfær og þá var strax komið í ljós að Stáli væri öðruvísi en flest önnur hross. Danni og Stáli tóku sér jólafrí en fljótlega eftir að Stáli fór í framhaldstamningu heltist hann og varð aldrei heill eftir það. Síðar kom í ljós að Stáli var með skaddaða sin og griffilbein og hafði tognað upp í bóg. Talið var líklegast að hann hefði fest annan framfótinn í einhverju og skaðað sig þegar hann var tryppi.
Stáli var ekki taminn meira á fjórða vetur en var tekinn inn á fimmta vetur og eftir tiltölulega stuttan tíma heltist hann aftur þegar farið var að leggja aðeins meira að honum. Þá var hann hvíldur í nokkrar vikur og eftir það þjálfaður mjög varlega og sýndur um vorið lítið taminn og þjálfaður. Stáli fékk 8.11 í aðaleinkunn þar af 9.0 fyrir tölt og vilja og geðslag en hann var sýndur skeiðlaus þar sem ekki hafði verið talið þorandi að athuga með vekurð vegna heltinnar.
Á sjötta og sjöunda vetur var reynt að þjálfa Stála en heltin kom alltaf fram. Á áttunda vetur var honum riðið nær eingöngu á feti allan veturinn og um vorið var tvisvar prófuð í honum vekurð og hann svo sýndur á Gaddstaðaflötum vorið 2006. Þar fékk hann allgóðan dóm, 8,57 í aðaleinkunn, þar af 9 fyrir tölt, skeið, vilja og geðslag og fegurð í reið, og þátttökurétt á Landsmóti á Vindheimamelum.
Stála var haldið í þjálfun með áframhaldandi fetreið fram að Landsmóti á Vindheimamelum 2006. Þar átti Stáli góða daga, varð efstur í elsta flokki stóðhesta og setti heimsmet í aðaleinkunn kynbótahrossa 8,76. Á þessum tímapunkti hafði Stáli aðeins farið sjö skeiðspretti um ævina, hann var sjálfgerður gæðingur. Útgeislunin, krafturinn og rýmið heillaði áhorfendur. Stáli kom, sýndi sig og sigraði.
Daníel Jónsson sýndi Stála í kynbótadómi og þar sem hann kom fram opinberlega. En í gegnum öll árin og erfiðleikana var það Helgi, eigandi Stála, sem þjálfaði hann og vaktaði með dyggri aðstoð frá dýralæknunum Páli Stefánssyni og Susanne Braun.
Fram að sýningu 2006 var Stáli ekki mikið notaður til undaneldis en eftir það varð gríðarleg ásókn í að koma hryssum undir hann. Til að anna eftirspurn var Stáli hafður í sæðingum í nokkur ár undir stjórn Páls Stefánssonar dýralæknis með mjög góðum árangri. Stáli hefur alltaf verið frjósamur og er enn. Til eru undan honum á níunda hundrað skráð afkvæmi.
Árið 2011 hlaut Stáli 1. verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti á Vindheimamelum.
Árið 2014 hlaut Stáli heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti á Gaddstaðaflötum. Lokasetningar í dómsorðum hans voru:
„Stáli gefur þurrbyggð og fínleg hross. Flest eru þau alhliðagengir gæðingar með góðu tölti, mikilli framhugsun og frábærri skeiðgetu. Stáli hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.“
Þegar þetta er ritað í mars 2020 er Stáli á tuttugasta og öðru aldursári. Hann er á húsi, feitur og sællegur við góða heilsu. Með vorinu sækja hann eflaust heim að venju einhverjar hryssur. Stáli og Helgi taka glaðir á móti þeim.