Fólkið í Kjarri

Helgi og Helga

 

 

Helgi og Helga hófu búskap í Kjarri vorið 1981 og hafa síðan þá lagt stund á garðplöntuframleiðslu og hrossarækt. Helga hefur umsjón með garðplöntuframleiðslunni en Helgi hrossaræktinni en hestamennskan hefur verið áhugasvið beggja frá barnæsku.

 

Helgi Eggertsson er fæddur og uppalinn á Selfossi. Hann fór ungur að leggja leið sína í hesthúsahverfið á Selfossi. Þrettán ára gamall eignaðist Helgi sinn fyrsta hest, hann keypti Stúf fyrir fermingarpeningana. Eftir það varð ekki aftur snúið. Helgi lauk BS námi í búvísindum frá Hvanneyri vorið 1981 og hóf búskap í Kjarri þá um vorið. Samhliða búskapnum starfaði Helgi í allmörg ár sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands m.a. við kynbótadóma á hrossum. Helgi var forstöðumaður Stóðhestastöðvarinnar í Gunnarsholti frá1986-1987.   Árið 1989 hóf Helgi rekstur tamningarstöðvar í Kjarri og réði starfsmenn sér til aðstoðar. Helgi hefur tamið og sýnt fjölda hrossa í gegnum tíðina jafnframt því að sinna hrossaræktinni í Kjarri.

honour prize stallion stáli frá kjarri
Bleikur frá Kjarri og Helga

 

 

Helga Ragna Pálsdóttir ólst upp á Kröggólfsstöðum í Ölfusi. Foreldrar hennar stunduðu hrossarækt og hestamennsku og ólst hún upp við að hestamennskan væri sjálfsagður hluti af tilverunni. Helga hefur alla tíð stundað hestamennskuna sér til ánægju og yndisauka. Hún er garðyrkjufræðingur að mennt og hefur umsjón með garðplöntuframleiðslunni í Kjarri.

 

Eggert Helgason starfar við tamningar og þjálfun hrossa í Kjarri. Hann er yngri sonurinn á bænum og hefur alla tíð tekið virkan þátt í bústörfunum í Kjarri. Á uppvaxtarárunum reið hann út og tók þátt í öllu sem tengdist hestamennskunni. Að loknu stúdentsprófi lagði Eggert leið sína í Hólaskóla og lauk þaðan BS námi í reiðmennsku og reiðkennslu vorið 2018.

Eggert Helgason Reiðkennari
Larissa Silja Werner Reiðkennari

Larissa Silja Werner starfar við tamningar og þjálfun hrossa í Kjarri. Hún er fædd og uppalin í Þýskalandi. Frá því Larissa man eftir sér hafa hestar átt hug hennar allan. Foreldrarnir létu undan, níu ára fékk Larissa reiðtíma í jólagjöf og ekki dvínaði áhuginn. Larissa kynntist tölti þegar hún reið Mangalargar Marchador  ganghestum frá Brasiliu 15 ára gömul. Áhuginn kviknaði og til Íslands kom hún í janúar 2014. Hún starfaði við tamningar og þjálfun áður en hún hóf nám við Hólaskóla. Þaðan útskrifaðist Larissa með BS próf i reiðmennsku og reiðkennslu vorið 2019.