Ræktunarsaga

Í Kjarri hefur verið stunduð hrossarækt síðan 1981 en þá hófu Helgi Eggertsson og Helga Ragna Pálsdóttir búskap á jörðinni. Helgi og Helga höfðu bæði stundað hestamennsku frá barnæsku, áttu góða reiðhesta og höfðu tekið þátt í flestu sem tengdist hestamennsku.

Þrjár hryssur lögðu drögin að hrossaræktinni í Kjarri, Stjarna frá Selfossi (IS1976287657) , Snoppa frá Selfossi (IS1975287658) og Drottning frá Kröggólfsstöðum (IS1964287051).

Þruma, dóttir Stjörnu, fæddi okkur 17  afkvæmi, 12 voru sýnd og þar af hafa 7 hlotið fyrstu verðlaun. Snoppa skilaði 6 dætrum og fengu 3 þeirrar fyrstu verðlaun. Drottning var amma Glampa frá Kjarri en hann hlaut m.a. 9.5 fyrir tölt í kynbótadómi.

Til gamans má geta þess að Hlaða-Blakkur frá Hlöðum var faðir Stjörnu og Snoppu og móðurafi Nunnu en Hlaða–Blakkur var undan Herði frá Kolkósi eins og Drottning frá Kröggólfsstöðum.

Helgi að skoða nýkastað folald

Ragna og Þruma frá Selfossi

Helga með smalahestana Þrym, Auð, Bleik og Stóra-Bleik

Jónína frá Hala og Nunna frá Bræðratungu komu inn í ræktunina og áttu sín fyrstu folöld 1997. Nunna eignaðist 17 folöld, þar af hafa 10 verið sýnd í kynbótadómi og 8 af þeim hlotið fyrstu verðlaun. Jónínu frá Hala áttum við sameiginlega með John Siiger Hansen og fengum við annað hvert folald. Jónína eignadist 19 folöld, þar af hafa 12 verið sýnd í kynbótadómi og 8 af þeim hlotið fyrstu verðlaun.

Jónína frá Hala

Nunna frá Bræðratungu

Stjarna frá Kjarri

Í Kjarri fæðast 7-10 folöld á ári. Hrossin eru flest alin upp í Kjarri, tamin og sýnd ef tilefni er til en einnig er alltaf eitthvað selt af ungum trippum.

Markmiðið er að rækta alhliða hross, geðgóð og viljug.

Stóðhestarnir sem valdir hafa verið í ræktunina eru í flestum tilfellum sýndir 1. verðlauna hestar. Þekktir hestar í bakættum okkar ræktunar eru Otur frá Sauðárkróki, Þokki frá Garði, Galsi frá Sauðárkróki, Angi frá Laugarvatni og Gáski frá Hofstöðum.

Lánið hefur leikið við okkur í ræktuninni og höfum við eignast marga góða gripi. Haustið 2019 hafa á fjórða tug hrossa úr okkar ræktun hlotið 1. verðlaun í kynbótadómi og tvö hross hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, þau Stáli og Stjarna.

Stjarna frá Kjarri 5 v.

Stáli frá Kjarri 5 v.

Stjarna hlaut heiðursverðlaun árið 2015. Hún var undan Þrumu frá Selfossi og Gusti frá Hóli. Stjarna var sýnd í kynbótadómi árið 2003 þá 5 vetra gömul og hlaut 8,28 í aðaleinkunn, 8,39 fyrir sköpulag og 8,21 fyrir kosti. Stjarna eignaðist 12 afkvæmi, í þeim hópi eru m.a. Spói, Tildra, Máfur og Fálki.

Hápunktur hrossaræktarinnar í Kjarri er án efa stóðhesturinn Stáli sem fæddur er 1998 og var sýndur á landsmóti á Vindheimamelum 2006. Þá hlaut hann hæstu einkunn sem íslenskur stóðhestur hafði fengið 8,76. Síðan þá hefur Stáli notið vinsælda og hlaut hann 1.verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti á Vindheimamelum 2011. Stáli hlaut síðan heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti á Hellu 2014.

Í ræktunarhryssuhópnum eru að verða kynslóðaskipti. Eldri hryssurnar eru að falla frá og við taka ungar hryssur úr okkar ræktun flestar undan Stála. Má þar nefna Skerplu, Gjólu, Sprengju, Viðju, Drottningu og Sömbu.

Fjölskyldan í Kjarri hefur alltaf verið samhent í hestamennskunni. Börnin, Páll, Ragna og Eggert, fengu öll hestabakteríuna og stunduðu hestamennsku á uppvaxtarárunum. Páll og Ragna eru nú flogin úr hreiðrinu en Eggert starfar við tamningar og þjálfun hrossa í Kjarri ásamt unnustu sinni Larissu Silju Werner. Þau hafa bæði lokið BS prófi frá Hólaskóla.

Eggert heldur á Stúf nýköstuðum

Ragna og Drottning

Palli og Hagsæld

Svo urðu hlutverkaskipti, Stúfur ber Eggert

Eggert, Ragna og Larissa í fjöruferð

Larissa og Fálki